Búnaður í þyrlu LHG miðaði út staðsetningu manns sem var týndur

  • GNA2

Fimmtudagur 12. september 2013

Frétt uppfærð kl. 14:15.

Landhelgisgæslu Íslands barst í gærkvöldi beiðni um aðstoð þyrlu við leit að manni sem var villtur á Hrútsfjalli milli Svínafellsjökuls og Skaftafellsjökuls. Veður var slæmt á svæðinu, um fimm metra skyggni og rigning á köflum.  Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA var kölluð út kl. 19:56  og var hún komin á staðinn kl. 22:08. Um borð í þyrlunni var GSM miðunarbúnaður til að staðsetja síma mannsins. 

Að sögn áhafnar TF-GNA sendi maðurinn frá sér textaskilaboð þar sem hann lét vita af því að hann hafi heyrt greinilega í þyrlunni kl. 22:28. Fékk áhöfn þyrlunnar þær upplýsingar og gat hún  þar með samræmt leiðsögugögn þyrlunnar við tímasetningu skilaboðanna. Þar með var miðuð út áætluð staðsetning mannsins og leitarsvæðið þrengt umtalsvert. Björgunarsveitarfólk Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hélt á staðinn og fannst maðurinn kl. 01:15 um 0,3 sjómílur SSV frá staðnum sem miðaður var út með þyrlunni. Maðurinn var kaldur og hrakinn og var hann fluttur með björgunarsveitarmönnum til byggða.

Landhelgisgæslan hefur komið að þróun og prófunum miðunarbúnaðarins en hugbúnaðarfyrirtækið Rögg ehf hefur borið hita og þunga af þróun kerfisins. Einnig hefur Landsvirkjun komið að þróuninni en hugmyndina fékk Óskar Valtýsson fjarskiptastjóri hjá Landsvirkjun þegar hann fylgdist með umfangsmikilli leit fyrir tveimur árum.

Skilyrði fyrir notkun tækisins er að sá týndi sé með kveikt á GSM síma. Um er að ræða færanlega GSM móðurstöð með fylgibúnaði sem staðsett er í þyrlu. Með búnaðnum verður hægt að staðsetja þann týnda með töluverðri nákvæmni á skömmum tíma. Flogið er með stöðina um leitarsvæðið og búin til GSM-þjónusta til þess að vekja símann, ef kveikt er á honum. Hefur hann sjálfkrafa samband við GSM-kerfið um borð í þyrlunni. Er síminn miðaður út og eru þá leitaraðilar komnir með staðsetningu.

Miðun þyrlunnar, staðsetning. Smella á mynd til að sjá pdf.

Staðurinn þar sem maðurinn fannst. Smellið til að sjá stækkun í pdf.


GSM_modurstod

GSM móðurstöðin er fest niður undir þyrluna meðan á leit stendur.