Formaður hermálanefndar NATO heimsótti Landhelgisgæsluna

Fimmtudagur 19. september 2013

Knud Bartels hershöfðingi og formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins kom í dag ásamt fylgdarliði í heimsókn til Landhelgisgæslu Íslands og kynnti sér sýn hennar á stöðu og framtíðaráskoranir varðandi löggæslu-, eftirlit-, varnar og öryggismál á Norður Atlantshafi, loftrýmisgæslu- og eftirlit og samstarfið innan NATO.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti Bartels, sendinefnd hans og fulltrúum utanríkisráðuneytisins í höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar og var síðan haldið um borð í varðskipið Þór þar sem kynntur var helsti búnaður og verkefni skipsins.


Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar tekur á móti Bartels

Landhelgisgæslan annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa NATO, rekstri öryggissvæða- og  mannvirkja og samskiptum við stofnanir Atlantshafsbandalagsins, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hinsvegar samskipti við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma, samskipti, umsjón og gistiríkjastuðning við loftrýmisgæsluvaktir bandalagsins.


Kynning á sýn Landhelgisgæslunnar á stöðu og framtíðaráskoranirÁsgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs kynnir Bartels
fyrir áhöfn varðskipsins Þórs