Sjósundkeppni útgerðarfyrirtækja - Athygli vakin á mikilvægi íþróttarinnar

  • Baldur_JPA-(2)

Föstudagur 27. september 2013

Sjósundkeppni fer fram í Nauthólsvík laugardaginn 28.9.2013. Þar keppa útgerðarfyrirtækin um titilinn „Sjósundgarpur Íslands 2013“.   Keppnin er samstarfsverkefni Sundsambands Íslands, Landhelgisgæslunnar og ÍTR.

Keppnin fer þannig fram að keppendur (fulltrúar útgerðarfyrirtækja) stinga sér til sund frá varð- og sjómælingaskipinu Baldri, sem siglt verður inn í Nauthólsvíkina, og synda í land en endamarkið er á sandströndinni í Nauthólsvík við pottinn. Vegalengdin sem synd er  100 metrar.

Dagskrá:

Kl. 13.00 synda meðlimir Sjór (Sjósund- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur), sem er aðildarfélag að Sundsambandi Íslands, 260 metra vegalengd. Veitt verða verðlaun fyrir skrautlegasta höfuðfatið.

Kl. 14.00 hefst keppni milli útgerðarfélaga þar sem synt verður frá Baldri í land. Sigurvegari er „Sjósundgarpur Íslands 2013“. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fylgja sundmönnum eftir á harðbotna bátnum Leiftri og gúmmíbátum þar sem kafarar verða tilbúnir til taks.

Markmiðið er að vekja athygli á fjölbreyttu starfi Sundsambands Íslands, öryggi sjómanna og mikilvægi þess að kunna að synda.

20130605_untitled_0051
Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur og harðbotna báturinn Leiftur verða við öryggisgæslu í keppninni.