Varðskipið Þór hefur tekið Fernanda í tog
Varðskipið Þór hefur nú tekið flutningaskipið Fernanda í tog og mun draga það til Hafnarfjarðar. Varðskipsmenn og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fóru um borð í Fernanda fyrr í dag til að tryggja aðstæður áður en hafist var handa við að draga skipið af vettvangi. Fernanda hafði þá rekið talsvert í norðvestur og var komið um 25 sjómílur suður af Grindavík. Fimm manns frá Landhelgisgæslunni og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru við störf nú um borð í Fernanda til að fylgjast með aðstæðum.
Meðfylgjandi myndir af varðskipinu Þór slökkva eldinn í Fernanda voru teknar af áhöfn þyrlunnar TF-LIF en hún flutti varðskipsmenn, slökkviliðsmenn og búnað um borð í Fernanda fyrr í dag. Varðskipið Þór er búið öflugu slökkvikerfi sem er sérstaklega hannað til að takast á við bruna í stórum skipum.