Hafís fyrir vestan land

  • Hafis-1

Þriðjudagur 26. nóvember 2013

Nokkrar tilkynningar um hafís hafa að undanförnu borist Landhelgisgæslunni. Ísjaki sást um 11 sml NNA af Furufjarðarnúp og auk þess er ísspöng með miklu af íshrafli og/eða lausum ís í 43 sjómílna fjarlægð N-af Horni. Einnig er gisinn ís talsvert nær landinu. Hafísinn sést illa eða ekki á ratsjá og getur valdið hættu. Ekki koma allir ísjakar fram á gervitungamyndum en þeir geta engu að síður verið hættulegir skipum því einungis 1/10 af þeim er ofansjávar.

Landhelgisgæslan sendir ávallt út hafístilkynningar og les þær upp í fjarskiptabúnaði stöðvarinnar. Einnig fara þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar í hafísflug þegar þörf er á. Upplýsingarnar eru sendar til Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Á heimasíðu Veðurstofunnar eru birt kort sem sýna staðsetningu borgarísjaka, sjá http://www.vedur.is/hafis/tilkynningar

Einnig vinnur Ingibjörg Jónsdóttir dósent í landfræði við jarðvísindadeild kort sem eru byggð á gervihnattaupplýsingum og sýna staðsetningu hafíss. Sjá nýjasta kort hennar. Hvíta línan sýnir ísjaðarinn.

Mynd af hafís er úr safni LHG.