Ákveðið að hætta leit á sjó - björgunarsveitarmenn ganga fjörur
Þriðjudagur 17. desember 2013
Ákveðið hefur verið að leit verði hætt á sjó að skipverjanum sem féll útbyrðis af flutningaskipinu Alexia síðdegis á sunnudag. Þessi ákvörðun var tekin í morgun í samráði við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu og lögreglu eftir að farið var yfir leitarferla og önnur gögn sem snúa að leitinni. Áfram verður leitað á landi og munu björgunarsveitarmenn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar ganga fjörur á svæðinu.
Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi voru í gær og á sunnudag við leit á svæðinu, þ.a.m. níu bátar, björgunarskipin Hafbjörg frá Norðfirði og Sveinbjörn frá Vopnafirði, auk harðbotna björgunarbáta frá sveitum á svæðinu.
Landhelgisgæslunni barst í gær kl. 18:25 aðstoðarbeiðni frá flutningaskipinu Alexia, sem var að koma inn til hafnar á Reyðarfirði. Skipverja var saknað og talið líklegt að hann hefði fallið útbyrðis. Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu voru samstundis kölluð út til leitar sem hefur ekki borið árangur.
Mynd úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar - Árni Sæberg.