Tilkynning barst um blikkljós við Vattarnes

  • _MG_0632

Föstudagur 20. desember 2013

Landhelgisgæslunni barst í nótt tilkynning um sjö hvít blikkljós sem sáust nærri Vattarnesbót við Reyðarfjörð. Virtist ljósið vera nærri yfirborði sjávar og blikkuðu þau stöðugt. Engin ljósmerki á þessu svæði eru merkt í kort Landhelgisgæslunnar en þó kom til greina að ljósin kæmu frá línubát sem var búin að vera á svæðinu.   

Haft var samband við bátinn og staðfesti skipstjóri að hann hefði tapað ljósabauju í gær og og ætlaði hann að svipast betur um eftir henni.  Hafði hann samband nokkru síðar og hafði þá fundið belg og bauju í geisla ljóskastara og hvít leiftur sem voru orðin mjög dauf og rafhlöðurnar líklega að tæmast. Trúlega er þetta baujan sem tapaðist deginum áður en ekki náðist baujan um borð vegna veðurskilyrða. Verður hún sótt þegar birtir.