Eitt íslenskt skip á sjó - búist við stormi á flestum miðum

Mánudagur 23. desember 2013

Aðeins var eitt íslenskt skip á sjó í morgun samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga. Búist er við stormi, þ.e. meira en 20 m/sek á flestum miðum og mikilli ísingu á Grænlandssundi og Norðurdjúpi. 

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér aðvörun vegna norðanhvassviðris eða storms (vindhraða 15-23 m/s) víða um land á aðfangadag, jóladag og fram á annan í jólum. Veðrinu fylgir talsverð snjókoma og skafrenningur N- og A - lands og því hætt við að færð spillist á þeim slóðum. Í dag, Þorláksmessu, gengur í norðaustanstorm með slyddu, en síðar snjókomu á Vestfjörðum og Ströndum.

Myndin er af varðskipinu Týr í Akureyrarhöfn.

Ljósmyndari Þorgeir Baldursson.