Landhelgisgæslan með erindi á ráðstefnu um Norðurslóðir

Fimmtudagur 23. janúar 2013

Nú stendur yfir í Tromsö í Noregi ráðstefnan Arctic Frontiers þar sem Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar (LHG) hélt erindi um öryggismál á Norðurslóðum og hlutverk Landhelgisgæslu Íslands í þeim breytingum sem framundan eru á þessum vettvangi.  Í erindi hans kom m.a. fram að reynslan af fjölþjóðlegum leitar- og björgunaræfingum sem Landhelgisgæslan hefur meðal annars tekið þátt í, s.s. SAREX, hefur leitt í ljós að Ísland er augljós kostur fyrir alþjóðlega leitar- og björgunarmiðstöð á Norður-Atlantshafi. Leitar- og björgunarsvæði Íslands er gríðarlega stórt eða 1,8 milljónir ferkílómetrar og ber Landhelgisgæslan ábyrgð á framkvæmd björgunaraðgerða innan svæðisins og kallar til aðstoðar aðrar þjóðir eftir þörfum og umfangi aðgerða.  Starfsmenn Landhelgisgæslunnar búa yfir fjölþættri reynslu og þekkingu á björgunaraðgerðum og þeim veðurfarslegu aðstæðum sem geta skapast á Norðurslóðum til dæmis vegna vinda og íss og hafa því getu til að bregðast við þegar þörf er á aðstoð innan hafsvæðisins.


Varðskipið Týr á SAREX æfingunni sem var haldin í september 2013

Síðastliðin ár hefur Landhelgisgæslan tekið umfangsmiklum breytingum í þeim tilgangi að vera betur í stakk búin undir þær breytingar sem vænta má með opnun siglingaleiða og aukinni umferð skipa með margvíslegan farm sem og skemmtiferðaskipa.   Tækjabúnaður hefur verið endurnýjaður og endurbættur, lögð hefur verið áhersla á alþjóðlegt samstarf og tengingar sem er grunnur þess að geta brugðist við á þessum slóðum og að hafa sem besta stöðumynd af hafsvæðinu á hverjum tíma.  Með vöktun stjórnstöðva LHG í Reykjavík og Keflavík og auknum tengingum vegna starfsemi LHG á fyrrum varnarsvæðum í Keflavík er stofnunin með mikilvægan grunn fyrir uppbyggingu alþjóðlegrar leitar- og björgunarmiðstöðvar. Ef kemur að áföllum á Norðurslóðum er svæðið vel búið og staðsett m.a. vegna nálægðar við alþjóðlegan flugvöll, fyrir móttöku slasaðra, samhæfingu og aðstæður fyrir erlendar flugvélar, áhafnir, björgunaraðila og fleiri.

Landhelgisgæslan hefur fylgst náið með þróun mála á Norðurslóðum og m.a. tekið þátt í að stýra og móta stefnu hvað varðar öryggi á hafinu í samstarfi við strandgæslur ríkja við Norður Atlantshaf. Markmið þeirra hefur fyrst og fremst verið að samhæfa og samræma aðgerðir þeirra og byggja upp þekkingu á þeim björgunarbúnaði og mannskap sem er til staðar. Verkefni strandgæslna eru afar fjölbreytt og viðamikil og má þar nefna leit og björgun, fiskveiðieftirlit ásamt því að bregðast við glæpastarfsemi á hafinu.

Sjá hér grein Fréttablaðsins í dag og viðtal við Ásgrím L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs LHG.


Fallhlífarstökkvarar stökkva úr flugvélinni TF-SIF yfir Grænlandi


BjörgunaraðgerðirSlökkviliðmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ræða við reykkafara úr áhöfn varðskips LHG