TF-LÍF bjargaði vélsleðamönnum við Drekavatn

Mánudagur 27. janúar 2013

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði í gærkvöldi tveimur mönnum sem festu vélsleða sína  í krapa við Drekavatn, austan við Þórisvatn. Þyrlan var kölluð út kl. 21:23 og fór í loftið kl. 21:39. Þegar þyrlan kom á staðinn kl. 22:50 hafði öðrum mannanna tekist að komast á fast land en  félagi hans beið á sleðanum um 10 til 20 metra úti í vatni og komst ekki á þurrt land. Voru báðir mennirnir hífðir um borð í þyrluna en þeir voru báðir óslasaðir. TF-LÍF lenti í Reykjavík kl. 23:30.

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Hvolsvelli voru einnig kallaðar út en þær voru afturkallaðar þegar þyrlan var farin til aðstoðar.