Myndir úr Þorskastríðinu 1976

Sunnudagur 26. janúar 2013

Hér eru nokkrar myndir úr Þorskastríðinu 1976 sem Landhelgisgæslan fékk nýverið sendar úr myndasafni Daníels Sigurbjörnssonar. Myndatextarnir komu einnig frá honum.
 

Varðskipið Baldur. Skipherra Höskuldur Skarphéðinsson. Höskuldur var mjög harður í horn að taka og sendi alls sex breskar freigátur heim, hann hafði það lag á að láta þá djöflast í sér nokkra klukkutíma, notaði svo þá aðferð þegar þeir voru við síðuna á honum, að slá vélunum á stopp, beygja 10°og lét svo þunga úthafsölduna og gálganna aftan á Baldri rista upp á þeim síðuna. Og síðan setti hann á fullt fyrir framan nefið á þeim og tók togara og klippti allt aftan úr honum.


Helgi heitinn Hallvarðsson. Hann skaut föstum skotum í mynni Seyðisfjarðar 11 des 1975 þegar þrír breskir dráttarbátar sátu fyrir  varðskipinu Þór eina mílu frá landi og gerðu mikla aðför að skipinu. Það kom til mjög harðra átaka og þeir voru þrír á Þór og keyrðu aftur og aftur á Þór. Helgi tók þá ákvörðun að skjóta föstum skotum á þá. Og til marks um hve alvarleg þessi aðför var, er sú staðreynd sem almennt er ekki vitað um að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fór á viðbragð, þar sem þetta átti sér stað innan 12 mílna og voru búnir að taka út þotur. Þeir voru tilbúnir að fara í loftið enda brotið á fullveldi íslenska lýðveldisins. Bresku herskipin fóru aldrei inn fyrir 12 mílurnar. En dráttarbátarnir flýðu út þegar Helgi lét vaða á þá föstum skotum. En skemmdirnar á Þór má sjá á myndinni hér fyrir neðan.


Harðasta ásigling allra þorskastríðanna átti sér stað að kvöldi 6 maí 1976. Þá kom til mjög mikilla átaka milli varðskipsins Týs, skipherra Guðmundur Kjærnested og bresku freigátunar Falmouth F113, skipherra Gerald Plummer. Skipin háðu einvígi í margar klukkustundir, en um klukkan ellefu á kvöldið missti Plummer þolinmæðina. Hann beygði frá, tók beina stefnu á Tý og lét setja 30 000 hestafla vélarnir á Falmouth í botn, keyrði beint á Tý miðskips. Týr var með klippurnar úti; þrír menn aftur á og skipið fór alveg á hliðina, þeir á bólakaf. Við ásiglinguna snérist Týr 180°og stefnið á Falmouth gekk svo langt inn að það náði yfir þyrlupallinn á Tý. Guðmundur náði að losa Tý frá, koma vélunum í gang; þær stoppuðu báðar. Sá breskan togara beint framundan og klippti aftan úr honum allt saman. Þá gerði Falmouth aðra aðför, nákvæmlega á sama hátt og keyrði Tý aftur alveg á hliðina. Nú var ástandið orðið alvarlegt, Týr var gríðarlega laskaður, og Guðmundur og áhöfn keyrðu inn á bakborðsvélinni einni, breskur dráttarbátur elti skipið og það var keyrt upp á líf og dauða á einni vél inn fyrir 12 mílur. Öll hin íslensku varðskipin, Baldur og Óðinn komu og fylgdu Tý inni. Dráttarbáturinn var alveg að ná Tý en það rétt slapp.
Falmouth F113 að hefja aðför að Tý að kvöldi 6 maí 1976


Ljósmynd tekin úr brú Falmouth af Guðmundu Kjærnested og hans mönnum.


Falmouth komin til hafnar í Bretlandi.