Æfingin Iceland Air Meet 2014 hafin

Mánudagur 3. febrúar 2014

Þjálfunarverkefnið „Iceland Air Meet 2014 (IAM 2014)” var formlega sett í morgun að viðstöddum yfirmönnum þjóðanna sem taka þátt í æfingunni og fulltrúum Landhelgisgæslunnar. Þátttakendur Iceland Air Meet 2014 (IAM2014) koma frá aðildarríkjum NATO þ.e. Íslandi, Noregi, Hollandi og Bandaríkjunum. Einnig taka þátt í æfingunni flugsveitir frá Finnlandi og Svíþjóð sem eru þátttakendur í samstarfinu Partnership for Peace.

Meðan á æfingunni stendur er flugsveit Norðmanna við loftrýmisgæslu NATO hér við land. Verkefnið er unnið skv. loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.


Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Major Tuukka Elonheimo, Finnska flughernum, Lt. Colonel Per Kallgärn, Sænska flughernum,  Lt. Colonel Haakon Gamborg, Norska flughernum, Colonel Geir Wiik æfingastjóri IAM 2014 og Jón B. Guðnason framkv.stjóri Lofthelgis- og öryggismálasviðs LHG. Mynd Pressphotos.biz

Gert er ráð fyrir að samtals verði um að ræða um 300 liðsmenn frá þjóðunum og um 20 flugvélar.  Finnar leggja einnig til tvær
NH-90 björgunarþyrlur sem verða m.a. við æfingar með flugdeild Landhelgisgæslunnar. Þyrlurnar voru einnig fengnar til að taka þátt í víðtækri leit sem fór fram í gær á Faxaflóa.  Til viðbótar framangreindu taka þátt í verkefninu eldsneytisbirgðaflugvélar frá bandaríska og hollenska flughernum ásamt ratsjárflugvél Atlantshafsbandalagsins og starfsmenn Landhelgisgæslunnar. 

Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að annast rekstur varnar- öryggis- og upplýsingakerfa NATO hér á landi, rekstur öryggissvæða- og  mannvirkja og vera í samskiptum við stofnanir Atlantshafsbandalagsins, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hinsvegar samskipti við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma t.d. Isavia. Í því felst m.a. framkvæmd loftrýmiseftirlits í stjórnstöð NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (Control and Reporting Centre). Verkefnið er hluti af samþættu verkefni NATO, „NATO intergrated air defence system - "NATINADS“. Fulltrúar þjóðanna munu starfa í stjórnstöðinni ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan annast einnig allt það sem snýr að gistiríkjastuðningi, það felst m.a. í að veita nauðsynlega borgaralega aðstoð,  þjónustu og aðstöðu fyrir mannafla og búnað, þ.m.t. er gisting.   Undirbúningur verkefnisins hófst fyrir ári  og gagnast verkefnið m.a. vegna þeirra breytinga sem eru fyrirsjáanlegar á Norðurslóðum. Verkefnið þjálfar  þjóðirnar í að flytja  tæki, búnað og mannafla langar vegalengdir og Landhelgisgæsluna í að taka á móti svo stórum hópi, annast gistiríkjastuðning og taka þátt í ýmiskonar skipulagi og áætlanagerð varðandi æfinguna. Slík þjálfun nýtist í öllum verkefnum hvort sem þau tengjast hernaðarógn, náttúruvá eða leit og björgun.