Fjallað um Landhelgisgæslu Íslands á fundi Varðbergs

Föstudagur 4. apríl 2014

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og Jón B. Guðnason framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs Landhelgisgæslunnar héldu í gær erindi á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Fjallað var um breytingar sem hafa orðið á starfssviði og umgjörð Landhelgisgæslunnar á síðastliðnum árum, sér í lagi eftir samþættingu verkefna fyrrum Varnamálastofnunar við starfsemina.

Frá 1. janúar 2011 hefur Landhelgisgæsla Íslands annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst meðal annars í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa Atlantshafsbandalagsins (NATO), rekstri öryggissvæða- og  mannvirkja, gistiríkisstuðningi, samskiptum við stofnanir NATO, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og samskiptum við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma. 

Í erindi sínu ræddi Georg um þær breytingar sem hafa orðið á Landhelgisgæslu Íslands frá árinu 2004 er teknar voru stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda um gagngera endurskipulagningu stofnunarinnar.  Á þeim tíma var nauðsynlegt að hugsa öryggi, varnir og björgunarmál Íslendinga upp á nýtt meðal annars vegna fyrirsjáanlegra breytinga við opnun Norðurslóða.  Ný lög um Landhelgisgæsluna voru sett árið 2006 og næsta skref var að búa Landhelgisgæsluna öflugum björgunar- og eftirlitstækjum í takt við nútímann.  Ráðist var í að smíða varðskipið Þór og kaupa til landsins og láta sérútbúa fullkomna leitar-,  björgunar og eftirlitsflugvél.  Gömlu varðskipin Ægir og Týr voru endurbyggð og eru þau verðmæt enn þann dag í dag. Þá er stöðugt unnið að langtíma lausn varðandi þyrlubjörgunarkost Landhelgisgæslunnar.

Fram kom í erindi Georgs hve mikilvægt er að Landhelgisgæslan sé í nánu og virku samstarfi og sambandi við nágrannaþjóðirnar um öryggis-, leitar- og björgunarmál.  Tengingar sem gæslan fær í gegnum ratsjárstöðvar NATO á Íslandi og annan eftirlitsbúnað eru eini möguleiki Íslendinga til að sjá út fyrir fjöruborðið og er því mikilvægt tæki fyrir Landhelgisgæsluna til að fá rauntímastöðumynd út fyrir landsteinana. Þetta skiptir öllu fyrir siglingar, öryggisgæslu, auðlindagæslu, björgunarsamstarf og allt sem lýtur að umferð í kringum landið.


Georg Kr. Lárusson,. forstjóri Landhelgisgæslunnar fjallaði um breytingar
sem hafa orðið í starfsemi LHG á síðastliðnum árum.

Landhelgisgæslan er í margvíslegu samstarfi við nágrannaþjóðirnar, systurstofnanir þeirra og NATO. Má þar nefna samstarf við Norðmenn vegna varðskipsins Þórs, við Svía vegna flugvélarinnar TF-SIF, og daglegt samstarf við danska sjóherinn um eftirlit og öryggismál á hafsvæðinu en Danir eru oft á tíðum til taks vegna þyrlubjörgunarmála þegar dönsku varðskipin eru við landið. Einnig hefur samstarf Landhelgisgæslunnar vegna Schengen og landamæragæslu fyrir Frontex verið afar mikilvægt bæði vegna síþjálfunar starfsmanna og til að halda flugvél og varðskipum í notkun, auk þess sem mikilvægt er að hafa fengið að taka þátt í björgun þúsunda flóttamanna.

Þátttaka í fjölþjóðlegum verkefnum verður sífellt mikilvægari því þegar kemur að umfangsmiklum björgunaraðgerðum er afar mikilvægt að hafa unnið saman í æfingum og viðbragðsáætlunum. Fyrir Ísland er mikilvægt að vera þátttakandi sem getur lagt sitt af mörkum, það kemur í veg fyrir að við verðum skilin eftir í miðju hafi án þess að hafa eitthvað um málin að segja út frá íslenskum forsendum.


Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri sagði frá starfsemi lofthelgis- og öryggismálasviðs
samþættingu verkefna fyrrum Varnamálastofnunar við starfsemi LHG.

Jón Björgvin Guðnason sagði verkefnum lofthelgis- og öryggismálasviðs sem eru viðamikil og hefur vel tekist að samræma þau annarri starfsemi Landhelgisgæslunnar. Utanríkisráðuneytið er ábyrgt fyrir stefnumótun öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi en Landhelgisgæsla Íslands sem heyrir undir Innanríkisráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd þeirra. Ríkislögreglustjórinn er tengiliður vegna upplýsinga og öryggismála.

Fjórar ratsjár- og fjarskiptastöðvar eru reknar hér á landi vegna íslenska loftvarnakerfisins. Ein þeirra er á Miðnesheiði á Reykjanesskaga, önnur á Bolafjalli við Bolungarvík, sú þriðja á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi og sú fjórða á Stokksnesi við Hornafjörð. Framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu fer fram í stjórnstöð NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Framkvæmd verkefna byggir á fámennum hópi starfsmanna Landhelgisgæslunnar og nánu samstarfi við aðrar deildir og samstarfsaðila, s.s. ISAVIA, Ríkislögreglustjóra og lögregluna á Suðurnesjum sem hafa innan sinna raða starfsfólk með mikla reynslu í þessum verkefnum. Til viðbótar tekur hópur verktaka þátt í verkefninu.

Nánar um verkefnin.

Mynd af þyrlum LHG: Baldur Sveinsson.

KEFIMG_0497
Flugskýli Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli sem er notað í ýmsum fjölþjóðlegum æfingum.