Undirrituð áætlun um viðbrögð við bráðamengun utan hafna og notkun skipaafdrepa

Miðvikudagur 28. maí 2014

Í vikunni var undirrituð áætlun um viðbrögð við bráðamengun utan hafna og notkun skipaafdrepa.  Áætlunin  fjallar um hvernig eigi að bregðast á við þegar óhöpp verða á sjó er varða skip í efnahagslögsögu Íslands sem ógna siglingaöryggi eða hætta er á að valdi umhverfisstjóni. Áætlunin var undirrituð  af Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, Hermanni Guðjónssyni, forstjóra Samgöngustofu og Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar. Áætlunin er hugsuð sem sameiginlegt stjórntæki Umhverfisstofnunar (UST), Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og Samgöngustofu (SGS) og er ætlað að tryggja fumlaust verklag og framkvæmd viðbragða vegna bráðamengunar, þegar hætta er talin á bráðamengun sem og rétta framkvæmd við notkun skipaafdrepa, sem útnefnd eru af SGS.

Skipaafdrep eru annars vegar innan hafna (neyðarhöfn) og hins vegar skjólgóð svæði sem eru tilgreind utan hafna. Aðgerðaáætlunina er hægt að virkja á fjórum stigum, þ.e. þegar atvik verður á sjó þar sem engin mengun er sjáanleg og engin hætta er talin á mengun; þegar hætta er talin á mengun; mengun er sýnileg og þegar skip þurfa að leita í skipaafdrep.

Með samningnum er stigið stórt skref í gerð viðbragðsáætlana vegna mengunarslysa en áætlunin er byggð á vinnu sem unnin var á árunum 2006 til 2008 af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands, Umhverfisstofnunar og Siglingastofnunar (nú Samgöngustofu) og reynslu og breytinga sem fengist hefur frá þeim tíma.

Sjá ætlun um viðbrögð við bráðamengun utan hafna og notkun skipaafdrepa.