Eldur kom upp í bát vestan við Straumnes
Föstudagur 6. júní 2014
Landhelgisgæslunni barst kl. 19:05 beiðni um tafarlausa aðstoð vegna elds um borð í fiskibát með þrjá menn um borð sem var staðsettur rétt vestan við Straumnes. Tveir menn voru þegar komnir upp á brúarþak. Bátar á svæðinu voru beðnir um aðstoð auk þess sem kallað var út allt tiltækt björgunarlið Slysavarnarfélagsins Landsbjargar frá Ísafirði og Bolungarvík. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN var við umferðareftirlit við suðurströndina og var hún beðin um að fljúga strax á staðinn.
Þremur mínútum síðar eða kl. 19:08 kom báturinn Hálfdán Einarsson á svæðið og var kominn með bátinn í tog tíu mínútum síðar. Björgunarskipið Gunnar Friðriksson hélt út frá Ísafirði kl. 19:28 áleiðis að Straumnesi með sjö menn og slökkvibúnað. Fleiri smábátar sigldu inn á svæðið boðnir og búnir til aðstoðar. Ástandið var talið viðráðanlegt kl. 20:02 og þá var TF-SYN snúið við. Hafði eldur þá minnkað og var aðeins reykur sjáanlegur. Þegar komið var í Bolungarvík kl. 22:40 tók slökkviliðið á Bolungarvík á móti bátunum og tók til við slökkvistörf.