Varðskipið Ægir skiptir út ljósduflum

  • IMGP7011

Föstudagur 13. júní 2014

Áhöfn varðskipsins Ægis vinnur nú að því að skipta út fimm ljósduflum sem komin eru til ára sinna. Ljósduflin, ásamt tilheyrandi búnaði, voru sótt í höfnina í Kópavogi og verður tveimur duflum komið fyrir í Hvalfirði, einu undan Akranesi og tveimur í Breiðafirði. Nýju duflin kallast stangardufl en þau eru gerð úr plasti, eru 10-11 metrar að lengd og vega 500 kíló. Tveir starfsmenn frá siglingasviði Vegagerðarinnar taka þátt í verkefninu.

Gömlu duflin hafa veð í notkun frá stríðsárunum. Þau eru um 4 tonn að þyngd og hafa þjónað sjófarendum vel í gegnum tíðina. Gamla duflið sem er út af Akranesi verður sett þar í land og því komið fyrir við vitann á Akranesi sem hefur talsvert aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Áður fyrr var gasljós á þessum baujum en var breytt yfir í sólarrafhlöður fyrir nokkrum árum síðan. Gömlu legufærin verða notuð áfram að hluta sem og steinninn sem heldur duflunum á sínum stað en hann vegur um 4 tonn. Öll legufærin verða tekin upp og yfirfarin auk þess sem skipt er út keðju þar sem þörf krefur.