Þyrla LHG við eftirlit með lögreglunni - rjúpnaveiðimenn hvattir til að skila inn ferðaáætlun

Sunnudagur 26. október 2014

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN fór um helgina til rjúpnaveiðieftirlits ásamt lögreglunni á Selfossi. Lögregluembættin í landinu annast eftirlit með rjúpnaskyttum meðan á veiðum stendur og nýtur til þess aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar. Meðan á eftirlitinu stóð var óskað eftir aðstoð vegna óhapps sem varð í Haukadalsskógi. TF-SYN lenti við slysstað og kannaði þyrlulæknir meiðsl sem reyndust minniháttar. Var þá eftirlitinu haldið áfram, lent var hjá veiðimönnum, farið yfir skotvopnaleyfi þeirra, byssur og skotfæri. Voru allir með sín mál í lagi.

Eftirlit sem þetta er fellt inn í annað eftirlits- og æfingaflug Landhelgisgæslunnar. Er það nauðsynlegur þáttur í veiðitímabilinu, fyrirbyggjandi og veitir ákveðið aðhald meðan á veiðum stendur.

Sjá heimasíðu Umhverfisstofnunir og umfjöllun þeirra um undirbúning fyrir rjúpnaveiðar.

Veiðimenn eru hvattir til að gera ferðaáætlun sem allir veiðifélagar vita af og líka þeir sem heima sitja. Þannig er hægt að kalla til hjálp ef veiðimaður skilar sér ekki á tilsettum tíma. 112 smáforritið fyrir snjallsíma er gagnlegt fyrir veiðimenn í því sambandi. Hægt er að sækja smáforritið á safetravel.is

Einnig eru þeir hvattir til að hafa í huga loftgæðaspá vegna eldgoss.