Útför Guðmundar H. Kjærnested skipherra

Þriðjudagur 13. september 2005.

Guðmundur H. Kjærnested skipherra var borinn til grafar í dag en hann lést 2. september sl. 82 ára að aldri. Útförin fór fram frá Hallgrímskirkju. Guðmundur var oft nefndur þjóðhetja vegna vasklegrar framgöngu í þorskastríðunum.  Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra segir um hann í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

Guðmundur varð þjóðfrægur fyrir skipstjórn sína og ávann sér mikla virðingu og vinsældir fyrir framgöngu á hættu- og spennutímum.  Hann var fylginn sér af hógværð og festu og farsæll skipherra. Mér er ljúft að votta minningu Guðmundar virðingu og færa honum þakkir fyrir ómetanleg störf í þágu íslensku þjóðarinnar.  Fyrir framgöngu manna á borð við hann nýtur Landhelgisgæsla Íslands óskoraðs trausts.

Í Morgunblaðinu er birt æviágrip Guðmundar. Þar segir:

Guðmundur stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni 1939-41. Hann lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1949 og skipstjóraprófi á varðskipum ríkisins árið 1953. Guðmundur var háseti á Belgaum, Dettifossi og síðar á varðskipinu Ægi á árunum 1940-49. Stýrimaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar 1949-53 og skipherra frá 1954-84. Guðmundur tók virkan þátt í uppbyggingu fluggæslunnar á fyrstu árum hennar frá 1955. Guðmundur var alla tíð virkur í félagslífi og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina. Hann sat í trúnaðarráði Stýrimannafélags Íslands á árunum 1950-53, var formaður Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar 1959-65, ritari Skipstjórafélags Íslands 1962-66 og formaður þess 1971-75. Hann var einnig forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands á árunum 1973-75. Guðmundur lét af störfum hjá Landhelgisgæslunni 28. apríl 1984. Guðmundur var starfsmaður utanríkisráðuneytisins 1984-1995. 1984 og 1985 gaf Guðmundur út endurminningar sínar í bókinni "Guðmundur skipherra Kjærnested", sem Sveinn Sæmundsson skráði.  Guðmundur var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1984, hann var sæmdur danska riddarakrossinum 1973, og 1974 var hann sæmdur orðunni riddari av St. Olavs Orden. Guðmundur var sæmdur gullmerki sjómannadagsráðs 1998.


Guðmundur Kjærnested skipherra í brúnni á Tý er hann lagði upp í síðustu sjóferðina sem skipherra.


Kristján Þ. Jónsson, Tómas Helgason, Ingvar Kristjánsson og  Hjalti Sæmundsson til vinstri og Halldór Gunnlaugsson, Hafsteinn Heiðarsson, Ólafur Pálsson og Leif Brydde til hægri bera kistuna.  Myndina tók Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.