Gríðarstórt flutningaskip á leið framhjá landinu

Sunnudagur 4. janúar 2014

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga komu í gær auga á þetta stóra skip, Navios Bonavis, skráð í Panama en í grískri eigu, í fjareftirlitskerfum stöðvarinnar í þar sem það var statt um 70 sjómílur suður af Ingólfshöfða þar sem það sigldi á hægri ferð í vestur. Skipið er tæp 100 þúsund tonn, tæplega 300 m langt og 45 metrar á breidd. Það ristir lestað um 12 metra.  Samkvæmt eftirlitskerfunum er það á leið frá Englandi til Kanada.  Ekki kemur fram hver farmur skipsins er en skipið er svokallað stór-flutningaskip (bulk carrier).

Ekki er óalgengt að skip á siglingu yfir Norður-Atlantshaf leiti þetta langt norður eftir til að forðast lægðir og meðfylgjandi óveður og slæmt sjólag.  Með bættri tækni hafa sjófarendur mun betri aðgang að veðurupplýsingum og geta því gert ráðstafanir til að forðast óveður þó að það setji lykkju á leið þeirra en í stað þess fer betur um áhöfn, skip og farm.

Íslenska 200 sjómílna efnahagslögsagan er alþjóðlegt hafsvæði m.t.t. siglinga og eru því skipin í fullum rétti til að sigla innan hennar.  Öðru máli gegnir hinsvegar um 12 sjómílna landhelgina og þurfa erlend skip að óska sérstaklega eftir að fá að sigla innan hennar þar sem hún er í raun ytri landamæri Íslands.  Skip sem óska þess að fá að koma inn í landhelgina vegna veðurs, bilana og annarra ófyrirsjánlegra aðstæðna er yfirleitt heimilað það enda gerir alþjóða hafréttar sáttmálinn ráð fyrir því að slíkt sé leyft.

Mynd MRF Nature/ fengin af vef Vessel Tracker:
http://www.vesseltracker.com/en/ShipPhotos/387464-NAVIOS%20BONAVIS-387464.html