Landhelgisgæslan vonast til að afstýra megi verkfalli

Fimmtudagur 15. janúar 2015

Nú stendur yfir hjá Ríkissáttasemjara fundur vegna kjaradeilu flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, og samninganefndar ríkisins og vonast Landhelgisgæslan til að afstýra megi verkfalli. Landhelgisgæslan hefur unnið, í samvinnu við innlenda og erlenda samstarfsaðila, að því að bregðast við hugsanlegri skertri viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar verði af boðuðu verkfalli flugvirkja sem hefjast á í fyrramálið kl. 06.

Ljóst er að ef til verkfalls kemur mun það hafa verulega mikil áhrif á flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar og viðbúnaðargetu hennar til að sinna nauðsynlegum verkefnum á sviði leitar og björgunar, löggæslu og sjúkraflutninga.  Vænta má þess að ef til verkfalls flugvirkja kemur, mun allt flug á þyrlum og flugvél Landhelgisgæslunnar stöðvast innan örfárra daga og jafnvel klukkustunda.

Til að búa sig undir það ástand sem mögulega gæti skapast af þessum sökum hefur Landhelgisgæslan gripið til ýmissa ráðstafana:

Helstu samstarfsaðilum hér á landi og erlendis hefur verið gert viðvart, svo sem björgunarmiðstöð danska sjóhersins í Nuuk á Grænlandi, sem hefur aðgerðastjórn á dönsku varðskipunum við Grænland og Færeyjar.

  • Björgunarmiðstöðinni í Færeyjum hefur verið gert viðvart.
  • Varðskipið Þór, sem staðsett er í Reykjavík, hefur verið sett í viðbragðsstöðu.
  • Danska herskipið Triton er staðsett í Reykjavíkurhöfn en þyrla skipsins hefur verið að undanförnu verið í reglubundnu viðhaldi í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Óskað hefur verið eftir að hún verði til taks fyrir Landhelgisgæsluna.
  • Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð og innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli hafa verið settar í aukna viðbragðsstöðu.
  • Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hefur yfirsýn yfir umferð herskipa og herflugvéla innan íslenska björgunarsvæðisins sem mögulega geta nýst við leitar- og björgunarþjónustu hér við land.

Landhelgisgæsla Íslands vonast til að lausn finnist svo ekki komi til verkfalls.