Vélarbilað flutningaskip á leið til hafnar - Varðskipið Þór til taks á svæðinu

  • Varðskipið Þór

Mánudagur 19. janúar 2015 kl. 15:30

Landhelgisgæslunni barst kl. 05:44 í morgun tilkynning um vélarbilun frá gámaflutningaskipinu Horst B sem var staðsett um 25 sjómílur VSV af Reykjanestá.  Skipið gat þrátt fyrir bilunina haldið 3-5 hnúta ferð og stefnir skipið nú í aðskildar siglingaleiðir N af Garðskaga. Varðskipið Þór verður til taks við Garðskaga þegar skipið heldur inn í Faxaflóa og hefur Landhelgisgæslan átt samráð við Samskip og skipstjóra Horst B. varðandi það.  

Áætlað er að skipið komi til Reykjavíkur eftir um 6-8 klukkustundir miðað við núverandi ganghraða. Þrettán manna alþjóðleg áhöfn er um borð í skipinu sem er að koma frá Rotterdam og á leið til Reykjavíkur. Er síðan áætlað að sigla á nokkrar hafnir á Íslandi. Skipið siglir á vegum Samskipa og er með almennan varning í gámum.  Skipið er skráð á Karabísku eyjunni Antigua and Barbuda  og er það 121 m langt og rúmlega 6000 brúttótonn að stærð.