Nýr þyrluflugmaður kominn á fastar vaktir hjá LHG
Þriðjudagur 20. janúar 2014
Jóhannes Jóhannesson, þyrluflugmaður sem var í haust ráðinn til Landhelgisgæslunnar hefur nú lokið grunnþjálfun sem er krafist til starfsins og mun í framhaldinu fara yfir á fastar vaktir flugdeildarinnar. Grunnþjálfun hefur staðið yfir í um fjóra mánuði en hún felst í æfingum bæði á sjó og landi, við allar hugsanlegar aðstæður sem geta komið upp í starfinu auk þess sem sótt eru ýmis námskeið varðandi verkefnin.
Einnig fór Jóhannes í flughermisþjálfun, sem flugmenn Landhelgisgæslunnar fara í tvisvar sinnum á ári, þar sem æfð eru rétt viðbrögð við hinum ýmsu atvikum sem upp geta komið í flugi. Þá fór hann með öðrum úr þyrluáhöfn í öryggisþjálfun sem fer fram í Aberdeen á Skotlandi. Um er að ræða reglubundna þjálfun áhafna og snýst um að komast út úr þyrlu sem hefur lent í sjó eða vatni (e. Aircraft Underwater Escape & Short Term Air Supply System (STASS)). Æfð eru viðbrögð áhafnar við þess háttar slysi og farið yfir reglur þar að lútandi. Áhöfnin fer í þyrluhermi sem síðan er settur á kaf í vatn og þurfa þáttakendur að bjarga sér út, eftir ákveðnum reglum, nota neyðarsúrefni og fleira.
Jóhannes er 26 ára gamall Eyjamaður og lauk flugnámi haustið 2010. Hann starfaði áður sem þyrluflugmaður hjá Þyrluþjónustunni en þar áður starfaði hann meðal annars sjálfstætt við ljósahönnun fyrir kvikmyndir og tónleikahald.