Reynt verður að ná Kára AK-033 af strandstað í Hvammsvík í Hvalfirði í dag

Reyna á að ná vélbátnum Kára AK-033 af strandstað í Hvammsvík í Hvalfirði á síðdegisflóði í dag um kl. 1600.  Dráttarbáturinn Magni frá Reykjavík verður notaður til verkefnisins en varðskipið Þór er á svæðinu og áhöfn skipsins hefur aðstoðað við undirbúning og mun aðstoða við verkið eftir þörfum.  Varðskipið getur ekki athafnað sig inn á víkinni í námunda við strandstaðinn það sem aðgrunnt er og þröngt þar sem báturinn er strandaður. 

Kári AK-033 strandaði í Hvammsvík að norðanverðu síðastliðinn laugardagsmorgun eftir að hafa dregið legufærin talsverða leið undan ofsaveðrinu sem gekk yfir.  Tilraun var gerð á sunnudag til að draga bátinn á flot af björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Ásgrími S. Björnssyni.  Þrátt fyrir nokkrar tilraunir náðist báturinn ekki út enda kominn talsvert hátt upp í fjöruna.

Í aftakaveðrinu sem gerði aðfaranótt mánudags færðist Kári AK-033 lengra upp í fjöruna en beðið hefur verið færis og aðstæðna til að draga hann á flot.  Straumur fer stækkandi þannig að á flóði fellur sjór meira að honum sem gerir björgun vænlegri og þar sem ekki spáir hagstæðu veðri næstu daga er talið ákjósanlegast að gangast í verkefnið í dag.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, Umhverfisstofnunar, Faxaflóahafna, tryggingafélags bátsins og fulltrúi eigenda funduðu um aðgerðir í morgun og varð það niðurstaðan að reyna björgun í dag.

Meðfylgjandi myndir tók áhöfnin á varðskipinu Þór klukkutíma eftir háflóð í gærdag.