Athygli vakin á hárri sjávarstöðu á flóði dagana 20. til 23. mars
Landhelgisgæslan vill vekja athygli á hárri sjávarstöðu á flóði dagana 20. til 23. mars. Nýtt tungl kviknar þann tuttugasta. Stórstreymi fylgir jafnframt lág sjávarstaða á fjöru. Það er því gott fyrir fjörulalla að hafa það í huga.
Flóðspáin er reiknuð út frá meðalloftþrýstingi 1013 mb. við sjávarborð. Ef loftþrýstingur verður lægri en 1013 mb. hækkar sjávaryfirborð sem nemur um það bil 1 sm fyrir hvert 1 mb. Standi vindur af hafi má jafnframt gera ráð fyrir einhverjum áhlaðanda.
Á meðfylgjandi myndum úr flóðtöflu má sjá flóðspá fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Siglufjörð, Djúpavog og Þorlákshöfn.
Í Reykjavík er gert ráð fyrir 4,4 metra sjávarhæð á háflóði. Flóðspá fyrir Ísafjörð gerir ráð fyrir 2,4 metra sjávarhæð á háflóði. Á Siglufirði er flóðspáin allt að 1,4 metra sjávarhæð á háflóði. Á Djúpavogi er flóðspáin allt að 2,3 metra sjávarhæð á háflóði og flóðspáin fyrir Þorlákshöfn gerir ráð fyrir 3,2 metra sjávarhæð á háflóði.