Varðskipið Týr aðstoðaði dráttarskip við björgun flóttafólks í gær – heyrðu skothvelli í fjarska

Áhöfnin á varðskipinu Tý aðstoðaði í gær dráttarskip við björgun flóttafólks um 60 sjómílur út af strönd Líbýu. Var það í beinu framhaldi af björgun áhafnar varðskipsins á 342 flóttamönnum. 

Um það leyti sem búið var að bjarga flóttafólkinu um borð í dráttarskipið, kom hraðbátur að dráttarskipinu sem virtist vera kominn á vettvang í þeim tilgangi að ná til baka bátnum sem flóttafólkið var á. Áhöfn hraðbátsins skaut nokkrum skotum upp í loftið, að því er virðist í þeim tilgangi að hræða flóttafólkið. Fóru þeir síðan á brott með bát flóttafólksins með sér en flóttamennirnir voru þá allir komnir um borð í dráttarskipið. Þegar þetta átti sér stað var varðskipið Týr statt tæpa sjómílu frá dráttarbátnum. Áhöfn varðskipsins heyrði skothvellina og fylgdist með atburðarrásinni úr fjarlægð.

Týr er nú á leið til Taranto á Ítalíu með flóttafólkið sem varðskipið bjargaði í gær og áætlar að koma þangað á miðvikudagsmorgun. Venjan er að fara með flóttafólk til Sikileyjar en þar eru nú allar flóttamannabúðir orðnar yfirfullar. Miklar annir eru á þessu svæði þessa dagana og mörg atvik í gangi á sama tíma.

Varðskipið Týr, ásamt öðrum skipum og flugvélum á vegum Frontex, hafa bjargað um 7.500 manns síðan á föstudag. Ellefu lík flóttamanna hafa fundist á svæðinu, þar af níu frá einum bát sem hvolfdi. Allar aðgerðirnar áttu sér stað um 12-60 sjómílur frá strönd Líbýu.