Varðskipið Týr komið til hafnar á Ítalíu með flóttamennina sem áhöfnin bjargaði á mánudag

Varðskipið Týr kom til hafnar í Taranto á Ítalíu rétt rúmlega hálfátta í morgun að íslenskum tíma með á fjórða hundrað flóttamanna sem áhöfnin bjargaði úr lekum bát um 50 sjómílur norðvestur af Trípólí síðastliðinn mánudag.

Í fyrstu var áætlað að Týr færi með fólkið til Sikileyjar en þar eru allar flóttamannabúðir orðnar yfirfullar og því sigldi Týr með flóttafólkið til Taranto.

Ítölsk yfirvöld tóku á móti flóttafólkinu er varðskipið kom til hafnar og gekk vel að koma fólkinu í land. Á siglingunni til Taranto hlúði áhöfn varðskipsins að flóttafólkinu en allnokkrar konur um borð voru ófrískar, fjöldi barna var í hópnum og sumir flóttamannanna nokkuð slappir og þrekaðir.

Varðskipsmenn eru nú að þrífa skipið og undirbúa það undir áframhaldandi verkefni. Heldur varðskipið Týr úr höfn frá Taranto snemma í fyrramálið en eins og fram hefur komið hefur gríðarlegur straumur flóttafólks verið á því svæði sem varðskipið hefur verið starfandi á að undanförnu. Hefur Týr, ásamt öðrum skipum og flugvélum á vegum Frontex, bjargað um 7.500 manns síðan á föstudag. Allar aðgerðirnar áttu sér stað um 12-60 sjómílur frá strönd Líbýu.

Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru við komuna til hafnar í morgun.