Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna strandaðs báts við Hópsnes
Björgunarsveitir einnig kallaðar út og samhæfingarstöðin virkjuð
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst nú kl. 12:23 neyðarkall frá bátnum Gottlieb 2622 sem var vélarvana við Hópsnes á Reykjanesi. Rak bátinn hratt að landi. Fjórir skipverjar voru um borð. Þegar í stað var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og björgunarsveitir á Suðurnesjum og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þá var samhæfingarstöðin einnig virkjuð.
Skömmu eftir að útkallið barst var báturinn kominn upp í kletta og lagðist þar á hliðina. Nærstaddir bátar á svæðinu komust ekki að til aðstoðar. Strekkingsvindur var á svæðinu, SA 10-12 m og aðstæður á staðnum erfiðar.
Skipverjar, sem voru allir í björgunargöllum náðu að koma taug í land og kl. 12:51 barst staðfesting um að þeir væru allir komnir upp í fjöru heilir á húfi.
Um hálftíma eftir að útkallið barst lenti þyrla Landhelgisgæslunnar í fjörukambinum og mun hún flytja skipverjana til Grindavíkur.