Áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar þátttakandi í björgun þúsunda flóttamanna á Miðjarðarhafi

Áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem nú er við störf á Miðjarðarhafi á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópusambandsins, hefur haft í nógu að snúast undanfarna daga. Síðan á föstudag hefur yfir 5.000 flóttamönnum verið bjargað af sökkvandi bátum sem lögðu upp frá Líbýu yfir hafið áleiðis til Ítalíu. Var flugvél Landhelgisgæslunnar þátttakandi í aðgerðum auk flugvélar frá Finnlandi og skipum frá Bretlandi, Möltu, Belgíu og Ítalíu.

Um er að ræða stærstu einstöku aðgerð á árinu en flóttamannastraumurinn hefur aukist gríðarlega. Hlutverk flugvélar Landhelgisgæslunnar er að greina skip og báta sem notaðir eru til að flytja flóttafólk frá Afríku til Evrópu. Eftirlitsbúnaðurinn í TF-SIF nýtist vel í þetta verkefni en með honum er mögulegt að greina litla báta í mikilli fjarlægð og áhöfnin metur svo á grundvelli upplýsinga frá myndum og hegðun bátanna hvort grunur sé á að fólk sé um borð. Áhöfn flugvélarinnar kallar síðan til nærstödd eftirlits- og björgunarskip til bjargar því fólki sem hún finnur.

Varðskipið Týr, sem verið hefur við störf á Miðjarðarhafi síðan í desember síðastliðnum er nú á leið til landsins og er væntanlegt á morgun, þriðjudag. Flugvélin TF-SIF mun verða við störf á Miðjarðarhafi fram til loka júlí og snýr þá aftur til starfa á Íslandi.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var af belgíska sjóhernum sem þátt tekur í aðgerðum, má sjá yfirfullan flóttamannabát sem komið var til bjargar í tæka tíð.