Umfangsmikil leit að frístundabát sem hvarf úr tilkynningarskyldukerfi 

Umfangsmikil leit hófst í gær að frístundaveiðibát sem gerður er út af sunnanverðum Vestfjörðum. Báturinn sem leigður er til erlendra ferðamanna til sjóstangveiða hvarf úr sjálfvirku tilkynningarskyldukerfi Landhelgisgæslunnar upp úr klukkan 16:00. Ekki náðist samband við bátinn og var þyrla Landhelgisgæslunnar send til leitar ásamt björgunarskipi Landsbjargar og nærstöddum bátum. Rétt fyrir klukkan 18:00 skilaði svo báturinn sér heill á húfi til hafnar.