TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar sækir ungan pilt sem féll í gil

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 14:15 í dag beiðni um aðstoð þyrlu vegna ungs pilts sem fallið hafði nokkra metra niður í gil á gönguleiðinni milli Hrafntinnuskers og Álftavatns. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF fór í loftið um 15 mínútum síðar og hélt á slysstað.

Er komið var austur fyrir Heklu sást að skyggni og skýjafar var að versna og var því flugið lækkað í átt að Álftavatni og reynt að fljúga undir lágskýjum upp að slysstaðnum. Fór þyrlan eins langt og unnt var miðað við skýjafar en til að komast að hinum slasaða gengu sigmaður og spilmaður þyrlunnar ásamt áhafnarlækninum rúma 45 mínútna leið að gilinu þar sem ungi pilturinn var. Vel gekk að búa að sárum hans og flytja hann um borð í þyrluna sem lenti svo í Reykjavík rúmlega tíu mínútur í fimm.