Innanríkisráðherra heimsækir Landhelgisgæsluna og árangursstjórnunarsamningur undirritaður við sama tilefni

Ólöf Nordal innanríkisráðherra heimsótti Landhelgisgæsluna í dag ásamt samstarfsfólki úr innanríkisráðuneytinu. Samhliða heimsókninni undirrituðu ráðherra og Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar árangursstjórnunarsamning milli ráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar.

Ráðherra kom ásamt samstarfsfólki sínu í höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Haldin var stutt kynning á helstu þáttum starfseminnar og starfsstöðvar kynntar. Þá skoðaði ráðherra starfsemi stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar þar sem fram fer vöktun og viðbragð vegna allrar hafsækinnar starfsemi á Íslandi sem og stjórnun leitar og björgunar vegna loftfara og skipa. Ráðherra skoðaði stöðumyndir af hafinu umhverfis Ísland og kynnti sér hvernig Landhelgisgæslan aflar upplýsinga til að hafa sem besta vitneskju um athafnir á hafsvæðinu á hverjum tíma og mikilvægi stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í því sambandi.

Því næst heimsótti ráðherra flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli þar sem ráðherra skoðaði þyrlu- og flugvélakost Landhelgisgæslunnar og heilsaði uppá áhafnir þeirra. 

Að því loknu undirrituðu ráðherra og Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar árangursstjórnunarsamning milli ráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar. Árangursstjórnunarsamningurinn kveður á um gagnkvæmar skyldur ráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar og helstu markmið í starfseminni næstu fimm ár. Um er að ræða samning sem leggur grunn að gerð 5 og 20 ára Landhelgisgæsluáætlunar þar sem meðal annars verður kveðið á um endurnýjun tækja, þjónustustig, viðbragð, þjálfun og fleiri mikilvæga þætti í starfseminni. Um er að ræða stefnumótandi samning sem mun marka helstu áhersluþætti í starfsemi Landhelgisgæslunnar til lengri tíma. 

 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar býður ráðherra og gesti velkomna.
 
Björgólfur H. Ingason aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kynnir fyrir ráðherra mikilvægi stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í starfseminni allri.
 
Ólöf Nordal innanríkisráðherra skoðar stöðumynd af hafsvæðinu kringum landið.
 
Sindri Steingrímsson flugrekstrarstjóri og Höskuldur Ólafsson flugtæknistjóri bjóða ráðherra og gesti velkomna í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli.
 
Sindri Steingrímsson flugrekstrarstjóri útskýrir fyrir ráðherra hvernig áhafnir undirbúa flugáætlun.
 

Um borð í flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF. Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður sýnir ráðherra eftirlitsbúnað flugvélarinnar.

 
Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri á spjalli við ráðherra um þyrlur Landhelgisgæslunnar.
Ólöf Nordal og Georg Kristinn Lárusson að lokinni undirritun árangursstjórnunarsamningsins.