Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir slasaða göngukonu við Hrafntinnusker

Rétt fyrir fjögur í dag barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um þyrlu vegna erlendrar göngukonu sem hafði fótbrotnað við Hrafntinnusker er hún datt í gegnum snjó. Langur burður var fyrir björgunarsveitir að komast að konunni og því var óskað eftir aðstoð þyrlu til að sækja hana og koma henni undir læknishendur.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN var á æfingu í Bláfjöllum er kallið barst. Snéri þyrlan þá þegar til Reykjavíkur til að taka eldsneyti og hélt síðan á slysstað. Læknir og sigmaður þyrlunnar bjuggu um konuna og var hún flutt á börum um borð í þyrluna sem flutti hana síðan á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.