Varðskipið Þór stendur togara að meintum ólöglegum veiðum
Varðskipið Þór stóð togara að meintum ólöglegum veiðum norður af Vestfjörðum í morgun. Er þetta þriðja skipið sem varðskipið Þór stendur að meintum ólöglegum veiðum í þessari viku en það sem af er ári hefur Landhelgisgæslan merkt talsverða aukningu í landhelgisbrotum.
Áhöfn varðskipsins Þórs vísaði skipinu til hafnar og sama gilti um hin skipin tvö sem staðin voru að meintum ólöglegum veiðum í vikunni. Tekur þá við frekari rannsókn lögreglu.
Varðskipið Þór er nú við löggæslu og eftirlit og hefur mikið verið að gera í margvíslegum verkefnum.