Annasamar eftirlits- og löggæsluferðir varðskipanna

Varðskipið Þór kom til hafnar fyrir skemmstu eftir afar annasama eftirlits- og löggæsluferð um miðin. Í ferðinni var meðal annars lögð áhersla á almennt fiskveiði- og öryggiseftirlit um borð í skip og báta.

Verkefni varðskipa Landhelgisgæslunnar eru afar fjölbreytt og hefur Þór verið í margvíslegum verkefnum síðastliðnar vikur. Fyrir utan hefðbundið eftirlit og skyndiskoðanir dró varðskipið vélbilað skip í höfn á Akureyri og annaðist botnrannsóknir við Suðvesturland. Þá fóru skipverjar af Þór í land í Aðalvík og upp á Straumnesfjalli og lagfærðu AIS búnað eða sjálfvirka tilkynningarskyldu auk þess að fara í Hornbjargsvita og annast þar undirbúning og frágang fyrir veturinn. Einnig voru nokkur öldumælisdufl endurnýjuð en þau eru mjög mikilvæg fyrir sæfarendur, sérstaklega smærri skip.

Auk þessa og margra fleiri verkefna fóru skipverjar úr áhöfn varðskipsins um borð í talsvert mörg skip og báta til eftirlits. Í sex tilvikum voru skip og bátar staðin að meintum ólöglegum veiðum. Tvö þeirra voru á rækjuveiðum án tilskilinna leyfa, eitt var að veiðum án veiðileyfis, tveir að veiðum í skyndilokunum og einn með of smáa möskva í poka botnvörpunnar

Í eftirlitsferðum sínum um borð í skip og báta kanna áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar meðal annars öryggisbúnað, réttindamál áhafnar, möskvastærðir veiðarfæra, stærðarmæla, fisktegundir og fleira. Slíkt eftirlit er eitt af mikilvægari verkefnum Landhelgisgæslunnar og er farið í eftirlit um borð í skip og báta þó svo enginn grunur liggi fyrir um ólöglegt athæfi.

Landhelgisgæslan hvetur sjómenn til að fylgjast vel með öryggismálum um borð, skipið sjálft er alltaf öruggasti farkosturinn þrátt fyrir margvísleg björgunartæki. Einnig þarf að huga vel að öllum lokunum veiðisvæða, bæði skyndilokunum og reglugerðarlokunum á hinum ýmsu veiðum.

Áhöfnin á varðskipinu Þór undirbýr nú brottför til áframhaldandi eftirlits- og löggæsluverkefna.

 
Tekið á móti endum á Tangarbryggju.
 
Hásetar á Þór binda skipið að aftan.