Eldur um borð í fiskibát
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst nú klukkan 12 á hádegi neyðarskeyti frá bát sem staddur var rétt austan við Vestmannaeyjar. Um svipað leyti kom tilkynning um neyðarblys á sama svæði. Eldur hafði komið upp um borð í litlum fiskibát og var einn maður í áhöfn hans.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem stödd var stutt frá vettvangi var þegar send á staðinn. Þá voru nærliggjandi skip og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar kölluð til. Skipverja bátsins var bjargað um borð í fiskiskipið FRÁR VE um tíu mínútum eftir að útkallið barst.
Fiskibáturinn er nú alelda og eru björgunarskipið Þór og þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi. Þá er Lóðsinn frá Vestmannaeyjum á leið á vettvang til að freista þess að slökkva eldinn.