Erfiðar veðuraðstæður í sjúkraflugi - þyrlunni tekist að komast á Breiðdalsvík
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur frá því klukkan rúmlega fimm í dag freistað þess að komast á Neskaupstað til að sækja sjúkling sem koma þarf undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlan lenti á Höfn um klukkan 19:15 og tók eldsneyti þar. Hélt þyrlan svo aftur af stað og hélt út fyrir annes á Austfjörðum. Upp úr klukkan 21.00 í kvöld var þyrlan komin í minni Norðfjarðar og hélt inn fjörðinn. Reynt var að lenda á flugvellinum á Neskaupstað en varð þyrlan frá að hverfa vegna sviptivinda sem voru allt að 70 hnútar sem eru um 35 metrar á sekúndu. Hélt þyrlan þá út fyrir annes aftur og freistaði þess að lenda á Stöðvarfirði en þar voru veðuraðstæður einnig afar slæmar. Að lokum gat þyrlan lent á Breiðdalsvík og var hún lent þar um klukkan 22:00. Þar bíður þyrlan átekta meðan freistað er þess að flytja sjúklinginn landleiðina á Breiðdalsvík. Verður hann þá fluttur með þyrlunni til Reykjavíkur.
Eins og er, er mikill stormur á Austfjörðum og meðfram suðurströndinni sem gerir aðstæður allar mun erfiðari.