Skátamót 2005

Fréttalína frá Flugdeild 24.7.2005

 

Laugardaginn 23. júlí tók þyrla LHG,  TF-LIF, þátt í Landsmóti Skáta við Úlfljótsvatn. Blíðskaparveður var þennan dag og mikill áhugi á þyrlunni hjá ungum skátum á mótssvæðinu. Byrjað var á að sýna björgun úr sjó með sigmanni, þar sem tveimur Dróttskátum var komið til bjargar úr Úlfljótsvatni. Því næst var sýnd björgun úr slöngubát þar sem aðrir tveir Dróttskátar voru hífðir upp með sigmanni. Að sýningu lokinni var lent á miðju mótssvæðinu, þyrlan sýnd og mörgum spurningum áhugasamra svarað eftir megni. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var fjöldi fólks á svæðinu og virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu stóra móti.

 Einnig var alveg ný reynsla áhafnarmeðlima þyrlunnar að fá að gefa “eiginhandaráritanir” eins og “hitt” fræga fólkið, en margir ungir skátastrákar vildu fá rithandarsýnishorn frá okkur....!