Mikil leit gerð að línu- og handfærabátnum Eyjólfi Ólafssyni GK-38

Fimmtudagur 23. júní 2005.

Mikil leit var gerð að línu- og handfærabátnum Eyjólfi Ólafssyni GK-38 bæði í gær og í morgun en áhöfn TF-LIF fann bátinn 58 sjómílur vestur af Reykjanestá um eittleytið í dag og amaði ekkert að tveimur skipverjum sem voru um borð í bátnum.  Eins og kunnugt er fer Landhelgisgæslan með faglega stjórnun vaktstöðvar siglinga en þar hafa strandarstöðvar og Tilkynningarskyldan sameinast. 

Skipstjóri Eyjólfs Ólafssonar GK-38 hafði samband við vaktstöð siglinga í gærmorgun kl. hálfsex og kvaðst vera að fara í lúðuróður út í svokallaðan Kant sem er 30 sjómílur vestur af Stafnesi og að hann ætlaði að hlusta á fjarskiptarás 10.  Varðstjóri í vaktstöð siglinga benti skipstjóranum á að það væri ólöglegt að fara út fyrir drægi sjálfvirku tilkynningarskyldunnar en hann sagðist samt sem áður ætla að gera það.  Þá var skipstjórinn beðinn að hlusta á rás 16 sem er alþjóðleg neyðarrás og gefa upp símanúmer í NMT-farsíma bátsins.

Báturinn hvarf út af skjám sjálfvirka tilkynningarkerfisins kl. 9:20 í gærmorgun.  Starfsmenn vaktstöðvar siglinga reyndu að hafa samband við bátinn í framhaldi af því en það bar ekki árangur.  Reynt var að kalla í bátinn á öllum tiltækum rásum og hringja í farsímanúmerið sem skipstjórinn hafði gefið upp en síminn var utan þjónustusvæðis.

Um kvöldmatarleytið í gær barst vaktstöð siglinga tilkynning frá bátnum Hafborgu GK-321 um að báturinn Eyjólfur Ólafsson GK-38 væri á sama stað og hann hafði gefið upp um morguninn, þ.e. í Kanti, 30 sjómílur vestur af Stafnesi.  Seinna kom í ljós að Hafborgin var stödd í höfn í Sandgerði þegar tilkynningin var send og því vandséð hvaðan skipverjar Hafborgar gátu fengið þessa vitneskju.

Vaktstöð siglinga hélt áfram að reyna að ná í skipstjóra Eyjólfs Ólafssonar fram eftir kvöldi enda er það skylda starfsmanna vaktstöðvarinnar að grennslast fyrir um báta sem hverfa út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni.  Engin svör bárust frá skipstjóra Eyjólfs Ólafssonar.  Haft var samband við báta sem vitað var að væru á svæðinu og óskað eftir að þeir svipuðust um eftir Eyjólfi og reyndu að ná sambandi við hann á rás 10 sem skipstjórinn sagðist ætla að hafa opna. Tilraunir skipa og báta á svæðinu til að ná sambandi við Eyjólf báru heldur engan árangur.

Í morgun fór stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga að skipuleggja leit að Eyjólfi Ólafssyni þegar frekari tilraunir til að ná sambandi við hann reyndust árangurslausar.  Björgunarbáturinn Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði var kallaður út um tíuleytið í morgun og áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 11.  Fór hún í loftið kl. 11:30.  Einnig var björgunarbátuinn Oddur V. Gíslason frá Grindavík kallaður út þegar starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og vaktstöðvar siglinga varð ljóst að hversu stórt leitarsvæðið yrði.

Um hádegisbilið voru send út öryggisskilaboð til skipa á svæðinu, svokölluð PAN PAN skilaboð, sem eru undanfari neyðarkallsins Mayday.  Einnig var færeyski báturinn Stapinn FD-32, sem var á svæðinu, beðinn að halda í áttina að þeim stað sem síðast var vitað um Eyjólf Ólafsson.  Hann brást þegar við tilmælum vaktstöðvar siglinga og hélt af stað til leitar.

Klukkan 13 í dag fann áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, Eyjólf Ólafsson 58 sjómílur vestur af Reykjanestá og amaði ekkert að skipverjum.  Báturinn var á heimleið. Þegar stýrimaður í áhöfn TF-LIF náði sambandi við skipstjórann voru skilaboðin þau að Landhelgisgæslan og vaktstöð siglinga ættu að hafa áhyggjur af einhverju öðru og var hann óhress með allt tilstandið, þ.e. að leit hefði verið gerð að bátnum.

Landhelgisgæslan og vakstöð siglinga eiga að bregðast við þegar skip og bátar hverfa út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni.  Ef eitthvað hefði komið fyrir bátinn og áhöfn hans hefðu sömu aðilar staðið illa að vígi ef ekkert hefði verið aðhafst.  Báturinn sem leitað var að var með útrunnið haffærisskírteini þar sem björgunarbátar hans höfðu ekki verið skoðaðir nýlega og báturinn sigldi út fyrir löglegt farsvið sitt.  Þegar haffærisskírteini er ekki gilt hafa skipverjar heldur engar tryggingar. 

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi