Þyrla sótti veikan sjómann í togarann Guðmund í Nesi

Miðvikudagur 15. desember 2004.

Skipstjórinn á togaranum Guðmundi í Nesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um kl. 6:30 í morgun og óskaði eftir þyrlu til að sækja veikan sjómann. Togarinn var þá staddur 100 sjómílur norðvestur af Snæfellsnesi.  Áhöfnin hafði reynt að hlúa að manninum samkvæmt leiðbeiningum læknis en það bar ekki tilætlaðan árangur.

 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og hafði læknir í áhöfninni samband við skipstjóra togarans.  Eftir að læknirinn hafði fengið allar upplýsingar um ástand mannsins var afráðið að sækja hann.  TF-LIF fór í loftið kl. 7:35 og kom að skipinu um níuleytið.  Aðeins tók nokkrar mínútur að hífa manninn um borð í þyrluna og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um kl. 9:20.  Þar beið sjúkrabíll sem flutti manninn á sjúkrahús.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.