Sjúkraflug TF-LIF í Hrunamannahrepp - Ung kona slasaðist við að falla í hálku

Miðvikudagur 8. desember 2004.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:01 og lét vita að ung kona hefði slasast er hún féll í hálku við sveitabæ í Hrunamannahreppi. Óskað var eftir þyrlu í viðbragðsstöðu. Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út.

Konan hafði náð að komast inn á bæinn en missti síðan meðvitund. Læknir var á leiðinni í sjúkrabíl á staðinn og hringdi hann um kl. 20:14 og óskaði eftir þyrlunni. Hún fór í loftið kl. 20:32. Ekki var hægt að lenda við bæinn þar sem konan var, vegna veðurs og slæms skyggnis, en þess í stað lenti þyrlan við nærstaddan bæ og flutti sjúkrabíllinn konuna þangað.

TF-LIF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 21:57. Nætursjónaukar voru notaðir í fluginu og skipti það sköpum þar sem mikil úrkoma og lélegt skyggni var á leiðinni.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.