Nordic Saga Cup 2004

Þriðjudagur 7. september 2004.

 

Tvö dönsk varðskip voru í Reykjavíkurhöfn um helgina.  Af því tilefni var skipulagt íþróttamót þar sem lið Landhelgisgæslunnar atti kappi við lið varðskipsins Tritons og varðskipsins Vædderen. 

 

Íþróttamótið fékk heitið Nordic Saga Cup 2004 og var haldið á Leiknisvellinum í Breiðholti á laugardeginum.  Fótboltakeppni hófst kl. 10:30 um morguninn.  Fyrst kepptu lið Tritons og Vædderen og sigraði lið Tritons 3-1.  Þar næst keppti lið Landhelgisgæslunnar við lið Tritons og sigraði Landhelgisgæslan 4-0.  Ekki gekk eins vel gegn Vædderen en þar tapaði Landhelgisgæslan 3-2.  Dómarinn, úr liði Tritons, dæmdi víti á Landhelgisgæsluna á síðustu mínútunni og var í herbúðum Landhelgisgæslunnar talað um dómarahneyksli, en allt þó í góðlátlegu gríni.  Markaskorarar Landhelgisgæslunnar voru Björn Brekkan Björnsson flugmaður með tvö mörk, Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Magnús Örn Einarsson stýrimaður, Óskar Á. Skúlason og Árni Jóhannesson með eitt mark.

 

Er fótboltakeppnin var yfirstaðin var farið í reiptog og stóð lið Tritons uppi sem sigurvegari. Að keppni lokinni bauð áhöfn Tritons hinum liðunum og áhangendum þeirra um borð í Triton þar sem boðið var upp á léttar veitingar.  Þar fór fram verðlaunaafhending þar sem gestgjafarnir fengu glæsilegan farandbikar fyrir góða frammistöðu í reiptoginu en lið Vædderen fékk verðlaunaskjöld til eignar fyrir sigur á mótinu í heild.  Lið Landhelgisgæslunnar varð því að láta sér nægja að gleðjast yfir góðri frammistöðu í fótboltakeppninni en þar skoraði Landhelgisgæslan flest mörk þótt stigatalan gæfi það ekki til kynna.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

Aðalmarkaskorari Landhelgisgæslunnar, Björn Brekkan Björnsson flugmaður, hefur sig til flugs.  Hann skoraði tvö mörk gegn Triton en gat því miður ekki verið lengi inni gegn Vædderen vegna meiðsla.

Halldór Nellett skipherra hreinsar frá markinu með því að taka undir sig stökk og skalla boltann.  Hann sýndi snilldartakta í boltanum og áhorfendur sáu ekki betur en að hann færi heljarstökk í viðureign sinni við Triton-liðið.

Magnús fjármálastjóri einbeittur í sókninni og Halldór Nellett skipherra á næstu grösum.

Óskar Á. Skúlason háseti í kröppum dansi að hreinsa frá markinu. Hann skoraði eitt mark af 6.

Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri mættur til að horfa á sína menn í boltanum, ánægður með markaskorarann Björn Brekkan Björnsson flugmann.

Landhelgisgæslumenn efla liðsandann með sigurhring og stríðsöskri fyrir leik.

Spenntir áhorfendur og hluti liðsins á hliðarlínunni, þ.á.m. markaskorararnir Björn og Magnús Örn Einarsson stýrimaður.

Hilmar Sigurðsson vélstjóri var í góðum gír í dómarahlutverkinu.

Lið Landhelgisgæslunnar: Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Halldór Nellett skipherra, Viggó M. Sigurðsson háseti/kafari, Marvin Ingólfsson háseti/kafari, Árni Jóhannesson afleysingamaður, Ragnar Georgsson ftr. í tæknideild, Róbert Örn Pétursson afleysingamaður, Sigurður Heiðar Wiium flugmaður, Óskar Á. Skúlason háseti/kafari, Magnús Gunnarsson fjármálastjóri, Magnús Örn Einarsson stýrimaður og Daníel Hjaltason flugvirki.  Þeir sem hafa heitið afleysingamenn voru "ráðnir" tímabundið yfir daginn vegna einstakra fótboltahæfileika.

Keppnislið danska varðskipsins Triton.

Keppnislið danska varðskipsins Vædderen fagnar í lok fótboltamótsins.

Hér sést lið Vædderen taka vel á í reiptoginu.