Eyðing sprengiefna á Tjörnesi

Föstudagur 6. ágúst 2004.

 

Lögreglan á Þórshöfn hafði samband við Landhelgisgæsluna um kl. 21:40 í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð sprengjusérfræðinga.  Fundist hafði sprengiefni, hugsanlega með hvellhettum, í hamri á Tjörnesi nærri þjóðveginum.

 

Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 23 og flaug með sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar beint á staðinn.  Lögreglan á Húsavík og Þórshöfn beið sprengjusérfræðinganna og benti þeim á staðinn þar sem sprengiefnið var.  Lögreglan lokaði þjóðveginum á nokkur hundruð metra kafla í báðar áttir á meðan sprengjusérfræðingarnir athöfnuðu sig.

 

Að sögn sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar var sprengiefnið sem fannst í plastslöngum ásamt tundurþræði.  Sprengiefnið var í góðu ásigkomulagi en hafði að hluta til aðskilist sem varð til þess að sprengifimur vökvi lak út úr slöngunum og storknaði.

 

Sprengiefnið fannst í 6 borholum í berginu.  Sumt var sjáanlegt en annað var mismunandi langt inni í berginu.   Það fannst á 30 metra svæði í hamrinum sem er 5 metra frá þjóðveginum.

 

Ekki var mögulegt að fjarlægja sprengiefnið úr borholunum þar sem óttast var að sprengiefnið hefði aðskilist að hluta til vegna efnabreytinga og ylli þess vegna sprengingu ef farið væri að hreyfa við því.  Einnig var hætta á að sprenging hlytist ef tundurþræðirnir yrðu fyrir hnjaski.  Þeir innihalda sprengiefnið Pentrit sem er mjög viðkvæmt og öflugt.

 

Ákveðið var að eyða öllum sprengjuhleðslunum með því að setja auka sprengiefni við allar holurnar og sprengja það samtímis.  Þannig var tryggt að allt sprengiefnið, sem hafði verið sett inn í bergið, myndi eyðast.

 

Aðgerðin heppnaðist vel og var lokið kl. 3:30 í nótt.  Áætlað er að sprengiefnið sem var falið í berginu hafi verið alls 25 kíló.  Talið er líklegt að það hafi verið sett í bergið vegna vegaframkvæmda og ekki sprungið af einhverjum ástæðum, jafnvel þar sem gleymst hafi að tengja það.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem voru teknar af sprengjusérfræðingi að störfum í nótt og sprengiefninu sem fannst í berginu.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.