Vitatúr varðskipsins Ægis

Fimmtudagur 5. ágúst 2004.

 

Á hverju ári siglir varðskip meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum og skerjavitum sem ekki er hægt að komast í frá landi.  Varðskipsmenn og menn frá Siglingastofnun sjá um eftirlit og viðhald á vitunum.  Nýlega lauk varðskipið Ægir einni slíkri ferð.

Meðal verkefna var að fara yfir rafgeyma og sólarspegla og endurnýja perur.  Einnig var skipt um vindrafstöðvar og tveir vitar á Breiðafirði voru sólarrafvæddir auk vitans á Gjögurtá. Þar við bættist venjulegt viðhald vitahúsanna, þ.e. að gera við húsin og mála þau.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

 

 

Seleyjarviti. Vitinn var málaður og rafmagn og veðurstöð sem í honum er yfirfarin.

 

Norðfjarðarhornsviti.  Hann stendur á kletti sem heitir Gullþúfa.  Stöngin var ryðhreinsuð og máluð og rafmagn yfirfarið, m.a. skipt um rafhlöður.

 

Kögurviti við Borgarfjörð eystri.

 

 

Ljósmyndarinn sjálfur, Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á leið í Bjarnarey. Varðskipið Ægir í baksýn.

 

Bjarnareyjarviti. Settir voru upp nýir sólarspeglar í vitanum og vindhraðamælir.  Sjá gamla torfhúsið en ekki er langt síðan dúntekjufólk gisti þar. 

 

Hér eru menn að koma á Zodiacbát varðskipsin Ægis úr vinnuferð í vitann í Grenjanesi skammt frá Raufarhöfn.  Um borð eru 7 menn frá Siglingastofnun og 8 menn úr áhöfn Ægis.

 

Flatey á Skjálfanda. Vitinn og húsin við hann. 

 

 

Innsiglingamerki við bryggjuna í Flatey.  Sett vatn á rafgeyma og sólarspeglar, perur og fleira yfirfarið. 

 

 

 

Ljósduflið við Hörgárgrunn í Eyjafirði var tekið upp í varðskipið og það yfirfarið og hreinsað.  Einnig var skipt um legufæri (stein og keðju).