Sjúkraflug í togara á Reykjaneshrygg vegna hjartveiks sjómanns

Mánudagur 14. júní 2004.

 

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF sótti í dag veikan mann um borð í togarann Venus HF-519 sem var við veiðar á Reykjaneshrygg og flutti hann til Reykjavíkur.

 

Um hálfellefuleytið fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um að skipverji á Venusi HF-519 væri veikur fyrir hjarta og nauðsynlegt væri að sækja hann með þyrlu. 

 

Áhöfn stóru þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var þegar kölluð út og sömuleiðis áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, en flugvélin fylgir þyrlunni til öryggis í lengri sjúkra- og björgunarflugum.

 

TF-LIF fór frá Reykjavíkurflugvelli kl. 11:40 og þurfti síðan að lenda í Keflavík til að taka eldsneyti.  Þaðan var haldið kl. 12:30.  Stuttu síðar fór TF-SYN í loftið frá Reykjavíkurflugvelli.

 

TF-LIF var komin að skipinu um kl. hálf þrjú og gekk vel að hífa sjúklinginn um borð.  Læknir í áhöfn þyrlunnar hafði þá verið í sambandi við áhöfn Venusar og leiðbeint við aðhlynningu hans. 

 

Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 16:20 en flugvélin hafði lent skömmu áður.  Sjúkrabíll flutti skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem Friðrik Höskuldsson stýrimaður tók þegar TF-LIF var að athafna sig yfir togaranum.  Myndirnar eru teknar frá TF-SYN.  Einnig fylgir mynd af TF-SYN sem tekin var frá TF-LIF.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.