Þáttaka Landhelgisgæslunnar í hátíðarhöldum á sjómannadaginn

Miðvikudagur 9. júní 2004.

Landhelgisgæslan tók þátt í hátíðahöldum á sjómannadaginn með ýmsum hætti.  Um morguninn stóðu fulltrúar Landhelgisgæslunnar heiðursvörð við athöfn í Fossvogskirkjugarði við Minningaröldur sjómannadagsins.  Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson fór með ritningarorð og bæn.

Þar næst var sjómannaguðþjónusta í Dómkirkjunni þar sem Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands predikaði og minnst var drukknaðra sjómanna.  Séra Jakob þjónaði fyrir altari en Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Ásgrímur L. Ásgrímsson deildarstjóri hjá Landhelgisgæslunni lásu ritningarorð.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, heimsótti Norð-Austurland í tilefni dagsins.  Sýnd var björgun úr sjó á Þórshöfn, Raufarhöfn og Húsavík.

Varðskipið Ægir lagðist að bryggju á Bolungarvík á sjómannadaginn og var bæjarbúum m.a. boðið upp á skemmtisiglingu.  Alls nýttu 284 manns sér það boð en það er rúmlega fjórðungur bæjarbúa.  Varðskipsmenn tóku einnig þátt í hátiðarhöldum bæjarins í tilefni dagsins, m.a. í kappróðri, koddaslag og tunnuhlaupi. 

Varðskipið Týr og sjómælingabáturinn Baldur voru á Norðfirði á sjómannadaginn og tóku meðal annars þátt í siglingu um fjörðinn ásamt fleiri skipum.  Bæjarbúum var boðið upp á stutta ferð með varðskipinu og þáðu það alls 53 manns.  Á laugardeginum voru Halldór Gunnlaugsson skipherra á Tý og Thorben J. Lund yfirstýrimaður viðstaddir vígslu nýs björgunarskips Norðfirðinga en skipið hlaut nafnið Hafbjörg.

Sjá meðfylgjandi myndir.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd Sveinbjörg Guðmarsdóttir: Landhelgisgæslumenn standa heiðursvörð við Minningaröldur sjómannadagsins í Fossvogskirkjugarði.

Mynd Sveinbjörg Guðmarsdóttir: Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda og Ásgrímur L. Ásgrímsson deildarstjóri lásu upp úr ritningunni við sjómannaguðþjónustu í Dómkirkjunni.

Mynd Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi:  Varðskipið Ægir fánum prýtt við bryggju á Bolungarvík á sjómannadaginn.

Mynd Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á Ægi: Lið Ægis í kappróðri - hægra megin á mynd. 

Mynd LHG: Fjöldi skipa frá Norðfirði fór í siglingu um fjörðinn í tilefni dagsins.  Þar á meðal var varðskipið Týr og sjómælingabáturinn Baldur en áhafnir þeirra tóku þátt í hátíðarhöldunum á Norðfirði.  Myndin er tekin frá varðskipinu Tý.