Sjúkraflug í norska úthafskarfaveiðiskipið Nordstar

Laugardagur 15. maí 2004.

Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um ellefuleytið í gærmorgun og óskað eftir aðstoð vegna slasaðs skipverja um borð í norska úthafskarfaveiðiskipinu Nordstar.  Skipverjinn var slasaður á hendi, líklega handarbrotinn. Skipið var statt á karfamiðunum á Reykjaneshrygg.

Skipstjóri Nordstar var beðinn um að halda í átt til Reykjavíkur og í samráði við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var ákveðið að bíða með að sækja hinn slasaða þar til skipið væri komið í 150 sjómílna fjarlægð frá landinu. Stóra þyrla Landhelgisgæslunnar,TF-LIF,  er nú í viðgerð og hámarksdrægni TF-SIF frá landinu er 150 sjómílur.

TF-SIF fór í loftið kl. 20:55 og lenti í Keflavík um níuleytið til að taka eldsneyti.  Þaðan var haldið u.þ.b. klukkustund síðar og flogið til skipsins sem var þá statt 140 sjómílur vestur af Keflavík. Hífingu var lokið kl. 23:42 og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 00:44. Þar beið sjúkrabíll og flutti slasaða skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.