Viðbúnaður vegna leka í norska selveiðiskipinu Havsel

Sunnudagur 2. maí 2004.

Björgunarstjórnstöðin í Bodö í Noregi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 4:53 og tilkynnti að leki hefði komið að norska selveiðiskipinu Havsel sem þá var statt 145 sjómílur austnorðaustur af Scoresbysundi eða 355 sjómílur norð-norð-austur af Akureyri.  Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

Áhöfn Havsel, alls 13 manns, höfðu fyrst ekki við lekanum, en skipið var fast í ís og stöðugt lak inn í vélarrúm þess.  Næsta skip sem vitað var um var annað norskt selveiðiskip, Polarfangst, en það var einnig fast í ís um 150 sjómílur frá Havsel.  Um kl. 5:46 var tilkynnt að búið væri að finna hvaðan lekinn kæmi og skipverjar reyndu að komast fyrir hann. Veður á svæðinu var slæmt, norðan níu vindstig og éljagangur. 

Orion flugvél norska hersins var send í átt til skipsins snemma í morgun.  Þá var þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar kölluð út og var TF-LIF í biðstöðu á Ísafirði til kl. 17:30 auk tveggja varnarliðsþyrlna.  TF-SYN var einnig í biðstöðu í Reykjavík til að fylgja TF-LIF til öryggis ef hún þyrfti að bjarga áhöfn Havsel.

Samkvæmt samstarfssamningi Landhelgisgæslunnar við danska herinn var óskað eftir því að danska herskipið Vædderen færi í átt til Havsel og tilkynnt var að norska varðskipið Tromsö væri einnig á leið til þess. 

Viðgerð á Havsel var lokið kl. 17:40 en ákveðið var að láta skipið halda í klukkustund í átt til Íslands til að athuga hvort viðgerðin héldi.  Að þeim tíma liðnum var viðbúnaðarástandi aflétt.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlafulltrúi