Ægir í viðgerð og Óðinn gerður út

Fimmtudagur 11. desember 2003.

Um þessar mundir er verið að endurnýja pústkerfi aðalvéla í varðskipinu Ægi en það bilaði nýlega.  Það hafði þó þjónað sínum tilgangi vel enda upphaflegt kerfi frá því á árinu 1968 er skipið kom til landsins. Einnig er verið að yfirfara akkeris- og dráttarvindur varðskipsins og setja upp nýjan gervihnattafjarskiptabúnað af gerðinni Inmarsat Fleet.

Þetta er nýjasta útgáfa af Inmarsat-fjarskiptabúnaði og felur hún í sér margvíslega nýja möguleika í fjarskiptum þar sem skipin verða sítengd með háhraðatengingu við innranet Landhelgisgæslunnar. Tilgangurinn með því er að auka upplýsingastreymi frá stjórnstöð stofnunarinnar til varðskipa þegar skipin eru við gæslustörf utan drægis farsímakerfa en þau hafa hingað til hafa verið notuð til gagnaflutninga. Sem dæmi má nefna upplýsingaflæði frá svæðastofnunum, svo sem Norð-Austur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC) í London.  Þegar varðskipin stunda eftirlit á fiskveiðistjórnunarsvæði NEAFC eru sendar til þeirra upplýsingar um staðsetningar, afla og athafnir allra þekktra skipa á svæðinu.

Á meðan viðgerð varðskipsins Ægis stendur yfir er varðskipið Óðinn gert út. Óðinn var gerður haffær í maí á þessu ári svo hægt væri að nota hann ef á þyrfti að halda, þ.e. ef hin varðskipin biluðu eða af öðrum ástæðum.

Á meðfylgjandi mynd, sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður á varðskipinu Tý tók í dag, er verið að setja upp undirstöður fyrir loftnetskúlur fjarskiptabúnaðarins um borð í varðskipinu Ægi.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlafulltrúi.