Djúpsprengju eytt við Álftanes

Mánudagur 13. október 2003.

Eins og fram hefur komið í fréttum fundu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tvær djúpsprengjur úr seinni heimstyrjöldinni út af Hliðsnesi á Álftanesi í byrjun október.   Önnur þeirra var sprengd 3. október síðastliðinn eftir að sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar höfðu flutt hana fjær byggð.  Í dag kl. 16:05 var seinni sprengjunni eytt.  Sprengjan var fest við pramma og flutt eina sjómílu fjær byggð.  Síðan var sprengiefni komið fyrir á prammanum og sprengingu komið af stað með því að tendra í því.  Sprengjan mældist 0.7 á Richtersmælikvarða samkvæmt skjálftavef Veðurstofunnar.  Að sögn sjónarvotta var hún tilkomuminni en sú fyrri sem mældist 1.6  á Richtersmælikvarða.

Sprengjusérfræðingar frá bandaríska flughernum voru um borð í varðskipinu Tý og fylgdust með starfsbræðrum sínum hjá Landhelgisgæslunni eyða sprengjunni.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi

Mynd: LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að störfum við prammann.


Mynd: LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Sprengjunni eytt.

Mynd: LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Adrian King sprengjusérfræðingur heldur á forsprengjunni.

Mynd:  LHG/Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt sprengjusérfræðingum bandaríska sjóhersins um borð í varðskipinu Tý.