Íslendingur sem týndist á hraðbáti í Norðursjó kominn í leitirnar

Fimmtudagur 10. júlí 2003.

 

Íslenskur maður sem týndist á hraðbáti í Norðursjó er nú kominn í leitirnar heill á húfi.

 

Björgunarstjórnstöðin í Stavanger hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 22:48 í gærkvöldi og tilkynnti að hraðbáts með einum manni innanborðs væri saknað í Norðursjó.  Maðurinn, sem er íslenskur, hafði lagt af stað frá Husnes suður af Bergen í Noregi og var í samfloti með seglskútunni Elding en þar eru einnig Íslendingar um borð.  Er komið var að borpallinum Frigg í Norðursjó ákvað maðurinn að sigla í kringum hann og lagði af stað í þá ferð kl. 18 er hann hafði tekið eldsneyti frá skútunni.  Ætlaði hann að hitta félaga sína á seglskútunni u.þ.b. klst. síðar.  Er hann kom ekki til baka eins og ætlað var létu félagar hans á Eldingu vita að hans væri saknað.  Flugvélar, þyrlur og skip tóku þátt í leitinni sem stóð í alla nótt og fram undir hádegi í dag.

 

Í morgun hafði björgunarstjórnstöðin í Stavanger samband og bað stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að koma upplýsingum um leitina á framfæri við ættingja mannsins hér á landi.  Um kl. 11:52 var svo tilkynnt að hann hefði fundist heill á húfi u.þ.b. 50 sjómílum frá þeim stað er hann ráðgerði að hitta félaga sína eða 45 sjómílur austur af Shetlandseyjum.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands